Fraktflutningar hafa skipað töluverðan sess frá upphafi flugs til og frá Íslandi. Frakt var flutt með Loftleiðum innan þeirra kerfis og hjá Flugfélagi Íslands. Með stofnun Flugleiða árið 1973 var jafnframt komið á legg Fraktdeild Flugleiða. Fraktflutningum óx fiskur um hrygg og til viðbótar við framboð á flutningsrými í farþegavélum var farið að bjóða upp á vikuleg fraktflug m.a. til Ostende í Belgíu.

Á árinu 1997 var sú nýjung tekin upp að bjóða upp á fraktflug til og frá Cologne í Þýskalandi 6 daga vikunnar á Boeing 737F fraktvél. Sú þjónusta varð fljótt of lítil miðað við eftirspurn og í september 1999 hófst flug 6 daga vikunnar til og frá Liege í Belgíu á Boeing 757PF fraktvél og jafnframt fraktflug 5 daga vikunnar til New York í Bandaríkjunum.  

Til að undirstrika mikilvægi fraktflutninga í Flugleiðasamsteypunni var Fraktdeildin gerð að sjálfstæðu dótturfélagi í byrjun árs 2000. Vaxandi fraktflutningar leiddu af sér byggingu nýrrar fraktmiðstöðvar í Keflavík sem opnuð var árið 2001.

Til að mæta sívaxandi eftirspurn bætti Icelandair Cargo í flotann fleiri Boeing 757 fraktvélum og nú eru 2 fraktvélar í notkun hjá félaginu.   Áfangastaðir í fraktflugi eru New York, Boston, Liege og East Midlands.  Að auki nýtir Icelandair Cargo víðfeðmt áætlunarflug Icelandair og í byrjun árs 2015 varð sameining við fraktdeild Flugfélag Íslands og getur því boðið upp á fraktflutninga til og frá u.þ.b. 54 áfangastöðum.


Icelandair Cargo er alþjóðlegt fyrirtæki með höfuðstöðvar í Reykjavík.  Einnig rekur fyrirtækið skrifstofu og vöruhús á Keflavíkurflugvelli. Icelandair Cargo rekur einnig dótturfyrirtækið Icelandair Logistics í Liege Belgíu.