18.04.2017

Í fyrsta skipti í sumar mun lið frá Íslandi taka þátt í einu stærsta samnorræna góðgerðaverkefni Norðurlanda, Team Rynkeby. 33 Íslendingar munu hjóla á átta dögum frá Kaupmannahöfn til Parísar og til stuðnings Styrktarfélagi Krabbameinssjúkra barna. Krabbamein er banvænasti sjúkdómur barna á aldrinum 1-15 ára og hefur nær alltaf varanlegar afleiðingar fyrir þau börn sem lifa af.

Team Rynkeby er góðgerðaverkefni sem hófst árið 2002 þegar ellefu starfsmenn danska safaframleiðandans Rynkeby Foods ákváðu að hjóla til Parísar til að sjá Tour de France. Fyrirtækið var aðalstyrktaraðili ferðarinnar, en önnur fyrirtæki studdu þá einnig. Svo vel gekk að fá styrki fyrir ferðinni að hagnaður var. Hann gáfu þeir til barnakrabbameinsdeildar sjúkrahússins í Odense og með því varð til hefð.

Team Rynkeby hefur farið fram árlega síðan og stækkað ár frá ári. Hvert land safnar fyrir félag krabbameinssjúkra barna í sínu heimalandi. Á síðasta ári gaf Team Rynkeby rúmlega 1.100 milljónir til stuðnings krabbameinssjúkum börnum.

Team Rynkeby liðin hafa öll sömu markmið sem eru:

  • Að safna peningum fyrir krabbameinssjúk börn í hverju landi fyrir sig og til rannsókna á þessum banvæna sjúkdómi.
  • Að koma þátttakendum í það gott form að þeir geti hjólað frá Danmörku til Parísar, alls tæplega 1.300 km.
  • Að hafa gaman, þátttakendur styðji hvort annað, líkamlega sem andlega og nái markmiðum sínum.

Um þessar mundir undirbúa sig um 2.400 þátttakendur í alls 44 liðum sem koma frá öllum Norðurlöndum. Þátttakendur voru valdir úr stórum hópi umsækjanda og lögð áhersla á að velja jafnt karla sem konur á ýmsum aldri, víða að úr þjóðfélaginu. Alls sóttu rúmlega 70 manns um að taka þátt fyrir Íslands hönd og er búið að velja 33 manna íslenskan hjólahóp auk 8 manna aðstoðarlið.

Þátttakendur greiða sjálfir fyrir sína þátttöku og skal skýrt tekið fram að ekki er um keppni að ræða heldur skal hafa gaman og njóta ferðarinnar og um leið að láta gott af sér leiða.  

 

 

Nánari upplýsingar: www.teamrynkeby.is  og  www.facebook.com/TeamRynkebyIsland  

team rynekby

Til baka